top of page

Þetta gerðist árið 2019

Janúar: Kynningarbréf um Flökkusýninguna Frá mótun til muna ásmt samnefndri heimildarmynd var sent til tólf safnstjóra, víðsvegar um landið. 

Febrúar: Fundur var haldinn hjá Brennuvörgum 12. febrúar hjá Ólöfu á  Selfossi. Þar fórum við yfir hvar og hvenær flökkusýningin yrði sett upp á árinu. Einnig ræddum við mögulegar námsferðir til Ítalíu og Ölands og spáðum í hvernig fjáröflun gæti farið fram. 

Apríl: Flökkusýningin okkar "Frá mótun til muna” var sett upp og heimildarmyndin sýnd í Auðarskóla í Dalabyggð á  meðan bæjarhátíð í Búðardal stóð . Bjarnheiður sá um allt utanumhald og var sýningarstjóri. Sýningartríóinu barst svar við kynningarbréfinu frá Þóru Sigurðardóttur á Nýp á Skarðsströnd. Þar bauð hún okkur að setja upp vinnustofu nokkra daga að Nýp 2020 eða 2021 til að kanna möguleika glerunga og eldbrenna nýja hluti í viðarbrennslu ofninum sem þar er. Í kjölfarið yrði sett upp sýning á Nýp. Útgangspunkturinn yrði íslensk jarðefni, náttúra og menning svæðisins. Ákveðið var og staðfest að þiggja þetta boð sumarið 2021. 

Maí: Flökkusýningin ásamt heimildarmyndinni var sett upp í Nýheimum á Höfn Hornafirði. Opnun sýningarinnar var 26. maí og stóð til 30. júní. Guðbjörg og Katrín sáu um flutning á verkum, allt utanumhald og voru sýningarstjórar. Katrín, Inga, Ólöf og Hrönn tóku sýningana niður eftir Humarhátíðina á Höfn. Markaðstríóið vann og lét prenta A4 blað með ferilskrá og upplýsingum um okkur og frumstæðu brennslurnar. Þetta kynningarblað ásamt sýningarskránni frá Listasafni Árnesinga fylgdu sýningunum á árinu. Glæsileg forsíðuumfjöllun um sýninguna birtist í Héraðs-fréttablaðinu Eystrahorni. 

Ágúst: Brennslumót og sýning var haldin á vinnustofu Hólmfríðar á Ólafsfirði 30. ág – 1. sept. Þar var mikið fjör og mikið brennt, bæði í raku, holu og tunnubrennslu. Þetta var vel heppnaður viðburður, en gestirnir hefðu mátt vera fleiri. Í leiðinni var tækifærið notað til að hafa stofnfund Brennuvarga sem fram fór laugardaginn 31. ágúst að Þverá við Ólafsfjarðarvatn, þar sem við gistum í góðu húsi. Á fundinum voru lög Brennuvarga samin og samþykkt. Kosið var í stjórn, meðstjórn og önnur embætti. Farið var yfir stöðu mála hjá tríóunum þremur og ákvörðun tekin um að halda aðalfund félagsins í febrúar ár hvert. Ákveðið var að félagsgjald ársins 2019 væri 7000 kr. Áhveðið var að sækja um kennitölu og stofna bankareikning.

September: Flökkusýningin ásamt heimildarmynd var sett upp í Safnahúsinu á Húsavík. Katrín og Hólmfríður voru sýningarstjórar og sáu um allt utanumhald. Opnunin var 14. september og mættu Hólmfríður, Ólöf og Steinunn til að taka á móti gestum. Sýningin stóð til 11. janúar 2020 og það voru þær Guðbjörg og Þórdís sem fóru svaðilför norður á Húsavík til að taka verkin niður. Þar sem að Ingibjörg flutti í Hveragerði á árinu var viðarbrennsluofninn í Hellugljúfri tekinn niður og fluttur í geymslu í Hveragerði ásamt öðru tilheyrandi góssi. Ingibjörg og Steinunn sáu um þennan flutning. Samningar eru í gangi við Hveragerðisbæ um að koma upp varanlegu húsnæði og brennslusvæði í Hveragerði. Ingibjörg, Hrönn og Steinunn sjá um þetta.

Október: Fjármálatríóið vann og sendi inn styrkumsókn til SASS - uppbyggingasjóð Samtaka sveitarfélaga á suðurlandi fyrir sýningar og gjörninga á árinu 2020. Umsóknin var samþykkt og fékk félagið úthlutaðan 400.000 króna styrk. 

Nóvember: Fjármálatríóið vann kerfisbundið þrekvirki - þegar félagið sótti um að verða löglegt. Það gekk í gegn og félagasamtökin Brennuvargar litu dagsins ljós og fengu kennitölu. Opnuðu einnig sinn fyrsta reikning í banka! 

Desember: Fjármálatríóið sendi inn styrkumsókn til Uppbyggingasjóð vesturlands í samvinnu við Norska húsið í Stykkishólmi fyrir uppsetningu sýningar og gjörnings vorið 2020. Sýningin verður uppi til lok júlí og brennslugjörningur einhvertímann yfir sýningartímabilið. 

20190831_160443.jpg
20190902_134948.jpg
bottom of page