top of page

Hver erum við?

 

Brennuvargar eru félagasamtök sem stofnuð voru árið 2019 og eins og er eru félagar 10 talsins. Allir eru menntaðir leirlistamenn og búsettir víðs vegar um landið. Hugmyndin að verkefninu kviknaði á vinnusmiðju þar sem unnið var með aldagamlar aðferðir til að brenna leir. Heimildarmynd var í leiðinni tekin upp og hefur hún verið sýnd á uppákomum félagsins.
 

Brennuvargar sérhæfa sig í að endurvekja og þróa aðferðir fortíðar við að brenna keramik í lifandi eldi. Öðlast frekari þekkingu með tilraunabrennslum og koma þeirri þekkingu á framfæri með sýningum og brennslugjörningum. Auka almenna þekkingu á leirlist, miðla henni til fólks á öllum aldri um allt land og kynna sig sem leirlistamenn og verk sín sem brennd eru með þessum aldagömlu en spennandi aðferðum. Við brennum verkin okkar með lifandi eldi og styðjumst við brennsluaðferðir fornaldar sem eru m.a. holubrennsla, tunnubrennsla og rakúbrennsla. Við rannsökum heimildir um þessar brennslur, prófum þær og þróum áfram. Einnig erum við að gera tilraunir með að búa til og prófa mismunandi brennsluofna fyrir lifandi eld. Ofnar geta verið byggðir úr pappír, múrsteinum, málmi, torfi og ýmsu öðru sem enn á eftir að uppgötva. Ofninn sjálfur getur jafnvel verið verk gert úr leir og staðið sem slíkt eftir brennslu. 

 

Allar þessar brennslur eru framkvæmdar utandyra og frumkraftar náttúrunnar, vindur, hitastig, rakastig, jörð, vatn, loft og eldur hafa áhrif á útkomuna. Einnig hefur val á eldsmat mikil áhrif á lokaniðurstöðu.  Viður, kúamykja, hrossatað, þang, kaffikorgur, kopar þræðir, stálull, þurrkaður gróður og kemísk efni gefa mismunandi liti og munstur og ekki er séð fyrir endann á tilraunum með fleiri efni sem eldsmat. Spennandi er að gera tilraunir á á íslenskum efnivið t.d. leir, gróðri, kísil og leir úr hverum, mýrarrauða ofl. 

 

Útkomunni úr þessum brennslum verður ekki stjórnað og hvert verk er einstakt. Listamaðurinn er þáttakandi í ferlinu en ekki allsráðandi varðandi niðurstöðuna. Þetta ferli tengir listamanninn við náttúruna á meðan hann í margar klukkustundir fylgist með brennslunni og bætir á eldinn. Í sólarupprásinni á haustin, í bjartri sumarnóttinni og jafnvel á heiðskíru vetrarkvöldi með norðurljósin dansandi yfir. Það er stórkostlegur viðburður í hvert sinn að opna þessa ofna og sjá hvernig tilviljunarkennd orka alheimsins hefur leikið gripina okkar.

Niðurstöðunum af þessari tilraunastarfsemi viljum við koma á framfæri til gagns og gamans fyrir almenning og fagfólk. Búa til gagnabanka reynslu og aðferða. Við viljum sýna framkvæmdina í verki og afraksturinn sem eru listaverkin okkar. Kynna okkur sem leirlistamenn og bæta við leirlistaflóru landsins. Það gerum við með sýningum og brennslugjörningum, upplýsingum í riti, leiðsögn og spjalli á sýningunum okkar og útskýringum á ferlinu við brennslugjörningana. 

 

Aukin fræðsla á þessu sviði hjálpar til við að festa fagið í sessi og auka áhuga almennings á leirlist. Félag sem þetta á þátt í að móta nýjar hefðir á Íslandi og getur orðið stór þáttur í því að búa til sérstöðu fyrir íslenskt keramik

Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
Pit%252520firing_edited_edited_edited.jp
bottom of page